Ljósastaurar graffaðir með prjóni

Í Reykholti í Biskupstungum má nú sjá marga ljósastaura skreytta með prjóni og setja þeir skemmtilegan svip á þorpið.

Það er Inga Þyri Kjartansdóttir sem er aðalhugmyndasmiðurinn að þessum skreytingum en hún segir þessar skreytingar í raun vera ullarprjónagraff þar sem notuð sé ull í stað málningarbrúsa til að graffa staurana. Henni telst til að það séu um sjötíu ljósastaurar í Reykholti og segir stefnt að því að skreyta þá alla. Nú þegar eru komnar á annan tug skreytinga eða gröff.

„Fólki er frjálst að skreyta eins marga staura og það vill og efniviðurinn er ekki bara bundinn við ull. Það má nota járn, föt og í raun hvað sem er svo lengi efnið skemmir ekki út frá sér eða er með neikvæðum formerkjum,“ segir Inga Þyri.

„Ferðamálafulltrúinn okkar hún Ásborg Arnþórsdóttir fékk samþykki Vegagerðarinnar og sveitarstjórnar Bláskógabyggðar fyrir þessu framtaki. Við ætlum að merkja hvern staur með númeri, nafni listaverks og höfundar og markmiðið er að fara síðar í stauragöngu og jafnvel ratleiki. Við stefnum að því að ljúka skreytingunum fyrir 9. júní á 10 ára afmæli Bláskógabyggðar. Þá höfum við hug á að fá utanaðkomandi aðila til að meta hvaða skreytingar séu frumlegastar og fallegastar,“ segir Inga Þyri.

Fyrri greinGolfsambandið lýsir yfir áhyggjum vegna golfvallar
Næsta greinNýr Goðasteinn kominn út