Síðasti opnunardagur Litlu kaffistofunnar við Suðurlandsveg verður næstkomandi laugardag en í vikulokin hættir Hlölla-fjölskyldan rekstri staðarins.
Greint er frá þessu á Facebooksíðu Litlu kaffistofunnar, þar sem fjölskyldan þakkar fyrir viðskiptin og velvildina frá því þau tóku við rekstrinum árið 2021. „Það er með trega sem við systur kveðjum þetta fjölskylduverkefni okkar en við erum líka spenntar að takast á við ný verkefni,“ segir í færslunni.
Í viðtali við Vísi segist önnur systirin Hjá Hlölla, Elín Guðný Hlöðversdóttir, vonast til þess að nýr eigandi finni öruggan rekstrargrundvöll fyrir staðinn. Einhver áhugi sé fyrir fasteigninni en lítið vitað um framtíðina.
Litla kaffistofan hefur lengi verið kölluð útvörður Árnessýslu í vestri. Hún var opnuð þann 4. júní árið 1960 og frá þeim tíma var jafnframt rekin eldsneytisafgreiðsla við hlið hennar, allt þar til í október 2023. Þá reyndist Olís ekki unnt að endurnýja starfsleyfi eldsneytissölunnar án verulegrar fjárfestingar við enduruppbyggingu afgreiðslusvæðisins.