Litli bróðir kom og sótti Íslendingana

Það urðu svo sannarlega fagnaðarfundir þegar Snorri og Fjóla hittu Gauta á flugvellinum í Róm. Ljósmynd/Fjóla St. Kristinsdóttir

Íslendingarnir sem voru staddir í Ísrael þegar stríðið hófst síðastliðinn laugardag, eru loksins komnir heim. Hópurinn lenti skömmu fyrir klukkan fimm í morgun á Keflavíkurflugvelli.

Utanríkisráðuneytið ákvað á sunnudaginn að senda farþegaflugvél til Ísraels til að sækja Íslendingana. Upphaflega stóð til að hópurinn myndi fljúga frá Tel Avív en það þótti ekki öruggt vegna sprengjuhótana. Hópurinn fór því með rútu til Jórdaníu, þar sem þau gengu yfir landamærin og skiptu um rútu sem ók til Amman. Þaðan var flogið til Rómar, þar sem Hekla Aurora, þota frá Icelandair, sótti hópinn.

Það sem gerði þessa heimferð einstaklega ánægjulega er að Selfyssingurinn Gauti Sigurðsson var flugstjóri Hekla Aurora og sá um koma Íslendingunum heilum heim. Gauti er litli bróðir Snorra Sigurðssonar en hann var ásamt eiginkonu sinni, Fjólu St. Kristinsdóttur, staddur í Jerúsalem þegar átökin brutust út, aðeins 20 kílómetra frá átakasvæðinu. Það urðu svo sannarlega fagnaðarfundir þegar bræðurnir hittust.

„Þegar við vissum að Gauti kæmi að sækja okkur þá var okkur mikið létt. Það var virkilega góð tilfinning að vita að hann af öllum kæmi að sækja Sunnlendingana,“ segir Fjóla þegar blaðmaður sunnlenska.is heyrði í henni er hún millilenti í Róm.

Lífsreynsla sem breytir manni
Hópurinn er skiljanlega örþreyttur eftir ferðalagið enda hefur lítið verið sofið eftir að átökin brutust út aðfaranótt laugardags að íslenskum tíma. Fjóla segir að það hafi verið mikill léttir að lenda í Róm og vera komin á öruggan stað.

„Flugið er búið að ganga eins og í sögu og það var mikið gott að lenda í Róm. Það er ólýsanleg tilfinning að vera á leiðinni heim ég fékk rúmlega ryk í augun þegar við gengum um borð og hittum Gauta. Þvílík forréttindi að vera frá litla Íslandi. Á sama tíma er ég með sorg í hjarta yfir ástandinu í Ísrael. Þetta er þyngra en tárum tekur og vona ég af öllu hjarta að þessu ástandi linni sem fyrst allra vegna.“

„Við fórum í þessa ferð til Ísrael til að upplifa söguna og fengum sannarlega að upplifa hana – bara allt aðra en við héldum og ég er sannfærð um að ekkert okkar verði samt eftir þessa lífsreynslu,“ segir Fjóla að lokum sem getur ekki beðið eftir að faðma fjölskylduna sína og vini.

Alls voru 126 Íslendingar staddir í Ísrael þegar stríðið hófst og var stærsti hluti þeirra Sunnlendingar sem ferðuðust með Kolumbus ferðaskrifstofunni. Auk Íslendingana voru fimm Fær­ey­ing­ar, fjór­ir Norðmenn og tólf þýsk ung­menni um borð í flugvélinni en Ísland hafði boðið Norðurlöndunum og Eystra­salts­ríkj­um laus sæti í vél­inni sem nýttust ekki fyr­ir ís­lenska rík­is­borg­ara.

Hekla Aurora, flugvél Icelandair, á flugvellinum í Róm. Ljósmynd/Fjóla St. Kristinsdóttir
Fyrri greinÞjóðveginum lokað austan við Markarfljót
Næsta greinGlæpamenn, fræg bæjarhús og fornleifar