Litlar og hagkvæmar íbúðir við Eyraveginn

Sigurður Sigurðsson, fasteignasali hjá Lögmönnum Suðurlandi, í einni íbúðinni við Eyraveg 26. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þrjátíu stúdíóíbúðir við Eyraveg 26 á Selfossi eru nú komnar á sölu í húsi sem áður hýsti hótel og heimavist fjölbrautaskólans.

„Þetta eru litlar og hagkvæmar íbúðir og henta vel sem fyrstu kaup til að komast af stað á fasteignamarkaðinum eða langtímaeign fyrir einn til tvo einstaklinga. Íbúðirnar eru misstórar, frá 33 upp í 42 fermetra og eru kjörnar fyrir þá sem vilja lifa einföldu lífi og ekki setja of mikið af tekjum í húsnæði,“ segir Sigurður Sigurðsson, fasteignasali hjá Lögmönnum Suðurlandi.

Húsgögn og raftæki fylgja öllum íbúðunum og Sigurður segir að hægt sé að ganga frá kaupunum með lágri útborgun og lítilli greiðslubyrði á mánuði. Viðtökurnar hafi verið góðar og þegar eru nokkrar íbúðir seldar. Af 30 íbúðum sem nú ertu til sölu taka fjórar íbúðir mið af þörfum hreyfihamlaðra og eru tvær þeirra seldar.

„Selfoss er að byggjast mjög hratt upp og það styttist í nýja miðbæinn og þessar íbúðir eru á miðbæjarsvæðinu. Það má segja að bíll sé óþarfur fyrir íbúana á Eyravegi 26 því það er fimm mínútna gangur í nánast alla þjónustu og strætó til Reykjavíkur,“ segir Sigurður ennfremur.

Nú er verið að stækka húsið og bæta við íbúðum auk þess sem byggja á geymslur við húsið í vetur og er stefnt að því að þær verði tilbúnar í byrjun sumars.

Fyrirhugað er að stækka húsið með þriðju hæð og risi í framtíðinni, auk þess sem verið er að byggja íbúðir sunnan við núverandi byggingu.
Fyrri greinHólmfríður aftur í Selfosstreyjuna
Næsta greinDregið í fyrstu umferð Gettu betur