Litlar líkur á að Björgvin verði bæjarstjóri

Þeir sem vilja veðja á að Sjálfstæðismenn og Samfylking myndi meirihluta í Árborg og Björgvin G. Sigurðsson verði bæjarstjóri eru í góðum málum verði sú raunin.

Á Betsson.is getur fólk nú veðjað á úrslit sveitarstjórnarkosninganna í Árborg. Hægt er að veðja á hvaða flokkar mynda meirihluta í bæjarstjórn að loknum kosningum og þar eru líkurnar taldar mestar á samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Þeir sem eru tilbúnir að leggja pening á að Sjálfstæðisflokkurinn nái hreinum meirihluta geta ávaxtað fé sitt vel, verði það raunin. Betsson telur líkurnar á hreinum meirihluta Sjálfstæðisflokksins þær sömu og að D-listinn myndi meirihluta með Vinstri grænum.

Einnig er ágætis stuðull hjá Betsson á það að Bjarni Harðarson, annar maður Vinstri grænna, komist inn í bæjarstjórn. Veðmálavefurinn telur hins vegar litlar líkur á því að bóksalinn muni setjast í bæjarstjórastólinn.