Lítilsháttar tap á rekstri SASS 2020

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, SASS, voru rekin með 2,5 milljón króna tapi árið 2020, að því er fram kemur í fundargerð aðalfundar SASS, sem haldinn var í lok október.

Tekjur sambandsins árið 2020 voru 164,3 milljónir króna en rekstrargjöldin tæplega 166,8 milljónir króna og fjármagnstekjur um 100 þúsund krónur. Rekstrartap ársins var því 2,5 milljónir króna.

Á aðalfundinum var fjárhagsáætlun ársins 2021 kynnt og samþykkt en gjald á íbúa hvers sveitarfélags sem á aðild að samtökunum er óbreytt á milli ára. Í fjárhagsáætlun ársins 2022 er gjald á hvern íbúa hins vegar hækkað úr 2.037 krónum í 2.100 krónur.

Þingið samþykkti einnig að hækka laun stjórnar SASS. Stjórnarmenn fá greiddar 51.416 kr fyrir hvern fund og föst mánaðarlaun formanns eru 128.541 kr en hann fær að auki 57.843 krónur fyrir hvern stjórnarfund. Fulltrúar í stjórnum, nefndum og ráðum SASS fá einnig greitt fyrir akstur til og frá fundarstað í samræmi við reglur RSK.

Fyrri greinHvergerðingar ætla að brúka bekki
Næsta greinSannfærandi sigur Selfoss