Lítill halli á rekstri HSu

Útlit er fyrir að halli á rekstri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á síðasta ári hafi verið um 15 milljónir króna eða um 0,6% af heildarrekstrarkostnaði.

Stofnuninni var gert að draga saman útgjöld um 125 milljónir króna eða um 6% frá árinu 2010. Nokkur aukning varð hins vegar á útgjöldum vegna aukinnar þjónustu í tengslum við eldgosið i Grímsvötnum. Þá gengu ekki öll áform um útgjaldalækkun eftir og meiri hækkun varð á nokkrum kostnaðarliðum, en gert hafði verið ráð fyrir. Stjórnvöld tóku nokkuð tillit til þessa og útlit er fyrir að rekstrarhalli ársins verði um 15 milljónir króna.

Heildarvelta ársins 2011 var rúmir 2,5 milljarðar króna, þar af nam rekstrarframlag ríkisins rúmum 2 milljörðum króna eða um 82% af heildarkostnaði.

Stærsti kostnaðarliðurinn var launakostnaður, Hann var rúmlega 1,8 milljarður króna. Annar kostnaður var 674 milljónir og sértekjur 430 milljónir króna.

Í tilkynningu frá stofnuninni segir að með samstilltu átaki hafi tekist að ná verulegum sparnaði á ýmsum þáttum í rekstri stofnunarinnar og halda rekstri hennar í þokkalegu samræmi við fjárheimildir.