Lítil umferð um jólin

Nýting á rútuferðum með Bílar og fólk ehf. Sterna sem sinnir sérleyfisakstri á Suðurlandi var með allra lélegasta móti yfir jóladagana.

Óskar Stefánsson, framkvæmdastjóri Bílar og fólk segir að sennilega hafi ekki verið minni “jólatraffík” í áratugi og reyndir bílstjórar muna ekki eftir eins litlum flutningum.

“Farþegatalan er langt fyrir neðan það sem hún hefur verið í desember til þessa og samkvæmt umsögn bílstjóra þá var alls ekki um meiri bílaumferð að ræða en gengur og gerist á þessum árstíma. Svo virðist sem fólkið hafi látið fyrirberast heima fyrir yfir þessi jól,” segir Óskar og bætir við að skýringin kunni að liggja í hvað jólin séu stutt þetta árið og fólki finnist það ekki taka því að fara að heiman fyrir svo stutt frí.

Óskar segir það sama uppi á teningnum í vöruflutningum sem voru langt frá því sem áður hefur tíðkast án þess að hafa útskýringar á því.

Annars gekk aksturinn vel yfir jóladagana og farnar voru aukaferðir á Þorláksmessu. Akstur í Landeyjahöfn féll niður á aðfangadag og ekki hefur verið ekið þangað síðan. Ekið er í veg fyrir Herjólf til Þorlákshafnar þá daga sem skipið siglir þangað og er reiknað með því að það verði þannig eitthvað fram í janúar.

Fyrri greinFarþegar þurfa að panta rútumiða
Næsta greinÞjófurinn otaði kúbeini að vertinum