Lítil nýliðun í landbúnaði áhyggjuefni

Lítil nýliðun í landbúnaði á sama tíma og tækifærin blasa við í atvinnugreininni er áhyggjuefni í Skaftárhreppi en miklir möguleikar eru til að styrkja megin atvinnugreinarnar í hreppnum, landbúnað og ferðaþjónustu.

Þetta voru helstu skilaboð íbúaþings sem haldið var á Kirkjubæjarklaustri nýverið. Þar kom fram að efling ferðaþjónustu veltur á lengingu ferðamannatímans og í landbúnaði eru margvísleg tækifæri í fullvinnslu og markaðssetningu afurða. Hinsvegar hamli skortur á íbúðar- og atvinnuhúsnæði uppbyggingu. Meðal þess sem heimamenn vilja sjá eru bætt fjarskipti, þrífasa rafmagn til sveita og bætt vegakerfi.

Guðmundur Ingi Ingason, oddviti Skaftárhrepps segir jákvætt að íbúar taki þátt í mótun framtíðarinnar en fréttir af því að þekkingarsetur væri sett í bið hafi verið ákveðið reiðarslag.

„Við höfum verið ansi þolinmóð og ekki stappað niður fótunum, en við vonumst til að þetta verði ekki slegið af,“ segir Guðmundur Ingi.

Fyrri greinÞjófar stálu pottum og pönnum
Næsta greinLeitað að fyrirtæki ársins