Lítil meiðsli í bílveltu

Ökumaður jepplings slapp lítið meiddur þegar hann missti stjórn á bifreið sinni undir Ingólfsfjalli og velti út fyrir veg á fimmta tímanum í dag.

Bifreiðin dró á eftir sér kerru, fulla af sandi, og af ummerkjum á vettvangi má dæma að þyngd kerrunnar hafi tekið völdin af bílstjóranum svo bíllinn fór að rása á veginum með þessum afleiðingum.

Eldur kom upp í bílnum við veltuna en vegfarendur slökktu hann með því að tæma úr nokkrum slökkvitækjum áður en slökkviliðsmenn frá Selfossi komu á vettvang.

Ökumaðurinn slapp með minniháttar meiðsli en hann var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands til skoðunar.