Lítið hlaup í Múlakvísl

Lítið hlaup varð í Múlakvísl í lok apríl. Þetta kemur fram á vefsvæði Veðurstofu Íslands.

Minni virkni var í Mýrdalsjökli í síðustu viku miðað við vikuna á undan, rúmlega 20 skjálftar, sjö innan öskjunnar og annað eins við Goðabungu en þar varð stærsti skjálftinn, 1,3 stig. Aðrir mældust við Hafursárjökul og Jökulshöfuð í suðaustanverðum jöklinum.

Aukinn órói sást á jarðskjálftamælinum á Láguhvolum sem er í nágrenni Múlakvíslar og hélst það í hendur við aukna rafleiðni sem mældist á leiðnimælinum við Léreftshöfuð í Múlakvísl. Þessa varð fyrst vart rétt undir mánaðamótin og þann 28. apríl hófst smáhlaup í Múlakvísl.

Lítil virkni á Hellisheiði
Lítil virkni var við Húsmúla á Hellisheiði en þar mældust örfáir skjálftar, ólíkt því sem var í síðustu viku þegar rúmlega 200 skjálftar mældust. Rólegt var á Suðurlandsundirlendi en nokkrir smáskjálftar mældust aðfaranótt þriðjudags í Landsveit, norðan Galtalækjar, á svipuðum slóðum og smáhrinan sem varð í síðustu viku og á sama dýpi, 5 – 6 kílómetrum.

Rólegt við Grímsvötn
Rúmlega 20 skjálftar mældust í Vatnajökli, allir smáir. Rólegt var í nágrenni Grímsvatna. Á svæðinu norðan Vatnajökuls mældust 25 skjálftar, mesta virknin var rétt suðvestan við Herðubreið, líkt og í síðustu viku.

Fyrri greinFyrsta lag Stuðlabandsins komið í spilun
Næsta greinSelfyssingar töpuðu á Hlíðarenda