Lítið hlaup í Skaftá líklega hafið

Rennsli Skaftár við Sveinstind hefur verið að aukast síðustu daga og minni háttar aukning hefur einnig orðið í rafleiðni. Sumarleysing á jökli eða rigningar orsaka ekki hið aukna rennsli.

Þessar athuganir þýða að Skaftárhlaup er líklega hafið.

Rennslið við Sveinstind í hádeginu í dag var um 112 rúmmetrar á sekúndu. Hlaupið kemur líklegast úr Vestari Skaftárkatli, sem síðast hljóp úr í júní 2015. Vegna hins stutta tíma sem liðið hefur milli hlaupa er ekki talið að hætta sé á ferðum.

Upptök hlaupsins fást ekki staðfest nema með athugunum úr flugi yfir katlana. Hlaupið getur staðið yfir næstu daga, en hámarksrennsli við Sveinstind verður líklegast náð í dag eða á morgun.

Veðurstofan bendir á að hér er um minniháttar jökulhlaup að ræða og mjög ólíklegt er að það valdi tjóni í Skaftárdal.

Möguleg vá

  • Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess er þá svo mikill að það getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi. Ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.
  • Sprungur munu myndast mjög hratt í kringum ketilinn, því ætti ferðafólk á Vatnajökli að halda sig fjarri kötlunum.