Litakóða Kötlu breytt í gulan

Vegna óvenju mikillar virkni í eldstöðinni Kötlu hefur litakóða fyrir Kötlu verið breytt úr grænu í gult. Gulur þýðir að eldstöðin sýni merki um virkni, umfram venjulegt ástand.

Öflug jarðskjálftahrina er nú í gangi í Kötlu, og byrjaði hún í gærmorgun. Aukin virkni, sú mesta í hrinunni hófst kl. 12:02 í hádeginu með nokkrum skjálftum sem voru allir M3 eða stærri.

Engin gosórói er sýnilegur nú þegar þetta er skrifað en vegna óvenju mikillar virkni í Kötlu eldstöðinni hefur litakóða fyrir Kötlu verið breytt úr grænu í gult.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra mun funda með vísindamönnum í dag og fara yfir stöðu mála.