Litaði Strokk bleikan

Síleanski listamaðurinn Marco Evarist­ti setti í morgun rauðan ávaxtalit í goshverinn Strokk í Haukadal sem gaus í kjölfarið bleiku gosi. Evaristti hefur verið kærður fyrir athæfið af landeigendum við Geysi.

Mbl.is greinir frá þessu og segir að sitt sýn­ist hverj­um um uppá­tæki Marco. Hann var á leið til yfirheyrslu hjá lögreglu þegar mbl.is náði tali af honum.

„Ég gerði það af því að ég er mál­ari, lands­lags­mál­ari en ég nota ekki striga held­ur mála ég beint á nátt­úr­una,“ seg­ir Marco um gjörn­ing­inn. Hann seg­ir að Íslend­ing­ar ættu að vera stolt­ir þegar þeir líta verk hans aug­um enda hafi eng­inn séð ís­lenska nátt­úru í þess­ari mynd áður.

„Ég bið ekki um leyfi því ég trúi því ekki að nátt­úr­an til­heyri nein­um. Ég er maður mál­frels­is og mér finnst að nátt­úr­an til­heyri ekki nein­um ein­um held­ur öll­um,“ seg­ir Marco.

Aðspurður neit­ar hann því að hann hafi með gjörðum sín­um ein­mitt tekið eign­ar­valdið í eig­in hend­ur og eyðilagt nátt­úru­verðmæti fyr­ir öðrum. Í gjörn­ing­inn notaði hann fimm lítra af rauðum ávaxtalit sem vana­lega er notaður í mat­vöru og seg­ist hann hafa vott­orð frá eit­ur­efna­eft­ir­liti Dan­merk­ur um að lit­ur­inn sé ekki skaðleg­ur nátt­úr­unni og að hann hverfi af sjálfu sér.

„Ég var þarna klukk­an kort­er yfir fjög­ur í morg­un og beið eft­ir því að sól­in kæmi upp. Ég fram­kvæmdi gjörn­ing­inn klukk­an 05:25 að morgni og eng­inn var á staðnum í þá tvo tíma sem þetta tók.“

Frétt mbl.is

Fyrri greinSkógræktarfélagið fékk umhverfisverðlaunin
Næsta greinSafna fyrir fjölskyldu Alexandru