Listin notuð sem vopn í baráttunni gegn heimilisofbeldi

Tvær leikkonur úr Hveragerði, þær Halldóra Rut Bjarnadóttir og Hildur Magnúsdóttir, eru báðar hluti af leikhóp sem ber heitið RaTaTam.

Leikhópurinn vinnur nú að leikverki um heimilisofbeldi sem byggir á reynslusögum þolenda aðstandenda í slíkum málum. Undirbúningur verksins hófst í byrjun þessa árs en hugmyndin fæddist fyrst fyrir þremur árum. Verkið verður frumsýnt í haust auk þess sem stefnt er að því að fara með það í sýningarferð um Suðurland. Þá hefur verið sett af stað söfnun á Karolina Fund þar sem fólk getur styrkt verkefnið og baráttuna gegn heimilisofbeldi.

Halldóra og Hildur eru bornir og barnfæddir Hvergerðingar og hafa brallað margt saman í gegnum tíðina. Þær stóðu fyrst saman á sviði níu ára gamlar í Dýrunum í Hálsaskógi í Grunnskólanum í Hveragerði. Halldóra er að útskrifast sem leikkona úr Leiklistarskóla Íslands og Hildur er nýútskrifuð úr Central School of Speech and Drama í London.

Tjá sig í gegnum leikara
Eitt af því sem Hildur tekur með sér úr námi sínu í London er leikaðferð sem kallast verbatim. Hildur segir að í stuttu máli gangi aðferðin út á að leikarinn túlkar sögu fólks á sem nákvæmastan hátt. „Leikarinn hermir nákvæmlega eftir til dæmis andardrætti, rödd og túlkun fólksins. Þetta er gert í bland við heimildaöflun og krafta leikhússins. Fólk sem hefur reynslu af ofbeldi getur því tjáð sína sögu í gegnum leikara í þeirri von að sagan endurtaki sig ekki á öðrum heimilum.“

Raddir sem þurfa að heyrast
Þær Halldóra og Hildur segja að hugmyndin að verkinu eigi sér langan aðdraganda en um þrjú ár eru síðan hún fæddist fyrst. „Það var ekki fyrr en núna í vetur sem hún fékk vaxtakipp svona fyrst við vorum að fara að útskrifast,“ segir Hildur. Þær eru sammála um að þær vilji nota listina sem vopn gegn heimilisofbeldi. „Og segja frá sönnum sögum sem verða vonandi öðrum heimilum víti til varnaðar. Raddir fólksins þurfa að heyrast og því vill Ratatam rjúfa þögninga sem umvefur heimilisofbeldi.“

Heimilisofbeldi eins og köngulóarvefur
Halldóra segir að líkja megi heimilisofbeldi við köngulóarvef sem þolandinn er orðinn of flæktur í til að losa sig út því sjálfur. „Oftast trúir þolandinn því að hann sé ekki þess verðugur að standa upp og ganga út. Stundum er ekkert um líkamlegt ofbeldi en í nánast öllum tilfellum er um andlegt ofbeldi að ræða í meiri mæli en það líkamlega. Gerandinn hefur komið þolandanum í skilning um að hann sé einskis virði en þá oftast með mjög löngu og kannski margra ára andlegu ofbeldi sem erfitt er fyrir þolandann að takast á við,“ segir Halldóra að lokum.

Fyrri greinDjúpt á fyrsta markinu í öruggum sigri
Næsta greinEkki fara ríðandi yfir Stóru-Laxá