Listi Framsóknar og annarra framfarasinna samþykktur

Fjögur efstu á listanum. (F.v.) Bjarki, Lilja, Rafn og Guri. Ljósmynd/Aðsend

Framboðslisti Framsóknar og annarra framfarasinna í Rangárþingi eystra vegna sveitarstjórnarkosninganna 2022 var samþykktur á opnum félagsfundi Framsóknarfélags Rangæinga í dag.

Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri Rangárþings eystra skipar fyrsta sæti listans, í öðru sæti er Rafn Bergsson, bóndi í Hólmahjáleigu A-Landeyjum, í þriðja sæti er Bjarki Oddsson, lögregluvarðstjóri og fjórða sæti skipar Guri Hilstad Ólason kennari.

Uppstillingarnefnd, skipuð Bergi Pálssyni og Sigrúnu Þórarinsdóttur, hefur undanfarnar vikur unnið að uppstillingu listans. Óskað var eftir áhugasömum einstaklingum sem vildu taka sæti á listanum og fóru viðtökur langt fram út væntingum, að því er fram kemur í tilkynningu frá framboðinu.

„Listinn er skipaður kraftmiklu fólki á öllum aldri úr Rangárþingi eystra. Þeir sem skipa listann koma úr mismunandi stéttum samfélagsins með fjölbreyttan bakgrunn. Öll höfum við þann metnað að vinna af krafti við að styrkja og efla okkar góða samfélag.Við hlökkum til komandi vikna í kosningabaráttunni og vonumst til að kosningabaráttan verði háð á drengilegan hátt þar sem málefnin og hagsmunir sveitarfélagsins verða hafðir að leiðarljósi. Við teljum að það sé mikilvægt að heyra raddir sem flestra og því viljum við eiga gott samtal við íbúa Rangárþings eystra. Við munum auglýsa opna fundi okkar þar sem íbúum er boðið að koma og hafa áhrif á þau stefnumál sem við munum leggja upp með,“ segir í tilkynningunni.

Framboðslisti Framsóknar- og annarra framfarasinna í Rangárþingi eystra er þannig skipaður:
1. Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri
2. Rafn Bergsson, bóndi
3. Bjarki Oddsson, lögregluvarðstjóri
4. Guri Hilstad Ólason, kennari
5. Kolbrá Lóa Ágústsdóttir, starfsmaður á Kirkjuhvol
6. Sigurður Þór Þórhallsson, starfsmaður íþróttamiðstöðvarinnar
7. Stefán Friðrik Friðriksson, sérfræðingur í markaðsmálum
8. Ingibjörg Marmundsdóttir, eldri borgari
9. Ástvaldur Helgi Gylfason, leiðbeinandi og þjálfari
10. Oddur Helgi Ólafsson, nemi
11. Lea Birna Lárusdóttir, nemi
12. Konráð Helgi Haraldsson, bóndi
13. Ágúst Jensson, bóndi
14. Ásta Brynjólfsdóttir, sérkennari

Fyrri greinÁrni leiðir Framfaralistann í Flóahreppi
Næsta greinJóhanna Ýr leiðir B-listann í Hveragerði