Listaverkauppboð til styrktar Grindvíkingum

Berglind Björgvinsdóttir, formaður Myndlistarfélags Árnesinga. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Sunnudaginn 17. desember stendur Myndlistarfélag Árnessýslu fyrir listaverkauppboði til styrktar Grindvíkingum.

Uppboðið fer fram á Hótel Selfossi og hefst klukkan 14:00. Andvirði verkanna rennur óskipt til Grindvíkinga, á reikning hjá Rauða krossinum sem er eyrnamerktur Grindvíkingum og hótelið lánar salinn án endurgjalds.

„Margir Grindvíkingar hafa misst heimili sín og eru komnir í það að þurfa að leigja og annað, skemmdir eru á húsnæði og sumir komast jafnvel ekkert heim fyrir jólin. Við ákváðum að halda uppboð til þess að láta gott af okkur leiða. Það er sárt að sjá Grindvíkinga missa heimilin sín og það er því ánægjulegt að geta gert góðverk til að hjálpa þeim sem þurfa,“ segir Berglind Björgvinsdóttir, formaður Myndlistarfélags Árnessýslu, í samtali við sunnlenska.is.

Á uppboðinu verða um 40 verk eftir um það bil 25 félagsmenn. „Verkin eru öll mjög ólík, það eru vatnslitaverk, akrýl- og olíumálverk og ólíkar stærðir á verkunum. Við hvetjum alla til þess að koma og vera með. Hægt verður að kaupa falleg listaverk sem gætu jafnvel verið fullkomin jólagjöf fyrir þá sem eiga allt,“ segir Berglind að lokum.

Pjetur Hafstein Lárusson með vatnslitamynd sem verður á uppboðinu. Pjetur er sá sem fékk hugmyndina að uppboðinu og félagsmenn tóku vel í hugmyndina. Ljósmynd/Aðsend
Krumla, akrýlmàlverk eftir Berglindi Björgvinsdóttur.
Ásdís Hoffritz með tvö verk sem verða á uppboðinu. Ljósmynd/Aðsend
Vatnslitaverk eftir Sjöfn Sveinsdóttur.
Fyrri greinJólasveinarnir mættu mannhafi í miðbænum
Næsta greinHamar úr leik í bikarnum