Listaverk sem ávarpar kvíða, einsemd og vonleysi

Elísabet Jökulsdóttir á bökkum Varmár. Ljósmynd/Hveragerðisbær

Listakonan Elísabet Jökulsdóttir hafði samband við forsvarsmenn Hveragerðisbæjar fyrir nokkru og kynnti hugmynd að listaverki sem ávarpað gæti kvíða, einsemd og vonleysi sem því miður eru tilfinningar sem bærast of víða.

Verkið felst í stórum steini sem verður komið fyrir við bakka Varmár þar sem áin rennur flesta daga lygn og falleg. Í steininn verður mótað sæti þar sem allir geta komið og setið, notið kyrrðar og fallegs útsýnis og velt fyrir sér áhyggjum eða gleði daglegs lífs.

Við hlið steinsins verður sett upp skilti þar sem segir Þetta líður hjá, með vísun til þess að líkt og áin sem lygn líður hjá þá munu vandamál viðkomandi sem gætu í augnablikinu virst óyfirstíganleg líða hjá!

Elísabet hefur fengið til liðs við sig myndhöggvarann Matthías Rúnar Sigurðsson og hafa þau í samvinnu við Hveragerðisbæ, fundið stóran og hentugan stein sem Matthías mun síðan höggva til sem „stól“ á árbakkanum. Ennfremur er gert ráð fyrir að umhverfisdeild bæjarins muni í framhaldinu planta „skynjunargarði“ í nánd við listaverkið þar sem njóta má lita, ilms, hljóða og áferðar mismunandi trjáa og runna.

Unnið er að því að flytja bjargið á árbakkann en verkinu hefur verið fundinn staður á bakka Varmár neðan við Heilsustofnun NLFÍ. Þar er afskaplega fallegt umhverfi, kyrrð og friður en göngustígur verður lagður að verkinu.

Matthías Rúnar mun höggva til steininn á næstu tveimur vikum en stefnt er að því að afhjúpun verksins geti átt sér stað á sýningunni Blóm í bæ helgina 13. – 17. júní næstkomandi.

Fyrri greinÞrefalt metstökk og stórbæting hjá Evu Maríu
Næsta greinÍbúum í Árborg fjölgar um 1,3 á dag