Listasmíði á Litla-Hrauni

Nýsmíðaður bænaljósastandur verður vígður með formlegum hætti við guðsþjónustu í fangelsinu á Litla-Hrauni innan tíðar. Þá geta fangar tendrað bænaljós – og ljós fyrir þá vini þeirra sem látist hafa síðustu mánuði.

Hönnun standsins var í höndum fanga, fangavarða, Guðmundar Magnússonar, yfirverkstjóra og Hreins Hákonarsonar, fangaprests. Fangi á Litla-Hrauni vann stjakann af mikilli alúð og nákvæmni, sauð, pússaði og málaði. Fangaprestur lagði til kertaskálarnar, fangelsið annað efni og fangavörðurinn hafði yfirumsjón með verkinu.

Fyrirmyndin er sótt til bænaljósastands sem er að finna í Borgarkirkjunni í Wittenberg en sú borg var deigla siðbótarhreyfingar Marteins Lúthers.

Nú er verkið komið í höfn og í gær var kveikt á standinum í tilraunaskyni í fyrsta sinn. Alls eru sjötíu kerti á standinum en sú tala er merkileg tala, sjö er heilög tala og tíu er tákn um fullkomnun, að sögn séra Hreins.

„Í starfi, námi og lífi er mikilvægast að finna það sem hæfir hverjum og einum. Flestir fangar geta vel unnið fái þeir heppileg verk og umhyggjusama leiðsögn. Nú geta fangar tendrað bænaljós fyrir vini sína sem hafa látist síðustu mánuði. Óvenju margir fíklar létust á síðasta ári og nú sömuleiðis það sem af er þessu ári og margir þeirra dvöldust um lengri eða skemmri tíma í fangelsinu á Litla-Hrauni. Blessuð veri minning þeirra allra,“ segir séra Hreinn.

Fyrri greinBúið að opna Hellisheiði
Næsta greinKasjúhnetuostur