Listasafn Árnesinga fékk úthlutað úr Barnamenningarsjóði

Alls hlaut 41 verkefni styrk úr Barnamenningarsjóði Íslands 2020. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Listasafn Árnesinga fékk 1,5 milljónir króna í styrk úr Barnamenningarsjóði Íslands fyrir árið 2020 en alls var úthlutað 92 milljónum króna úr sjóðnum til 41 verkefnis.

Verkefni LÁ er unnið í samstarfi við Viktor Pétur Hannesson myndlistarmann og grunnskóla á Suðurlandi. Kristín Scheving, forstöðumaður safnsins, tók við styrknum fyrir hönd LÁ.

Grasagrafík er yfirskrift námskeiða sem haldin verða á Suðurlandi, þar sem unnið verður með jurtir úr flóru Íslands og þær nýttar í listsköpun. Vinnan skilar sér m.a. í því að nemendur og kennarar þeirra sjá jurtir í náttúru Íslands í nýju ljósi.

Þetta var önnur úthlutun sjóðsins sem stofnaður var í tilefni aldarafmælis fullveldisins. Hlutverk hans er að styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífinu. Forsætisráðherra ræddi sögu íslenskrar barnamenningar og íslensks samfélags og hve mikilvægt væri að gefa öllum börnum tækifæri til að skapa og feta ótroðnar slóðir. 

Fyrri greinSamkomubannið gaf fólki tíma í garðvinnu
Næsta greinLeitað að vitnum að líkamsárás