Lionsklúbbur Selfoss gaf 1,5 milljónir í tilefni 50 ára afmælis

Lionsklúbbur Selfoss varð 50 ára í gær en af því tilefni fóru félagar á klúbbnum á fjóra staði á Selfossi og gáfu samtals 1,5 milljónir til líknar- og menningarmála í þágu ungmenna.

Lionsfélagarnir komu við hjá VISS, vinnu- og hæfingarstöð fatlaðra og afhentu 250 þúsund krónur. Sama upphæð fór til Lúðrasveitar Selfoss, en Björgunarfélag Árborgar og Skátafélagið Fossbúar fengu 500 þúsund króna styrk.

Tilgangurinn með veitingu þessara styrkja er að efla unglingastarf en það er ósk klúbbsins að fjármunum þessum verði varið til að byggja upp aðstöðu og til kaupa á tækjum sem nýtast til framtíðar fyrir æsku Árborgar og nágrennis.

Lionsklúbbur Selfoss var stofnaður þann 13. apríl 1965 og voru stofnfélagar fimmtán talsins en í dag eru þeir 33, þar af einn stofnfélagi.

Klúbburinn hefur ávallt verið öflugur og frjór, hann hefur alltaf haft líknar,-menningar- og umhverfismál að leiðarljósi í sínu starfi og einkum sinnt slíkum verkefnum í nærumhverfinu, en klúbburinn hefur einnig stutt verkefni bæði á landsvísu og á alþjóðavettvangi.

Aðalfjáröflun líknar- og menningarsjóðs klúbbsins hefur verið útgáfa á Jólablaði Lions sem klúbburinn hefur gefið út í 32 ár. Í blaðinu er fróðleikur og greinar eftir lionsfélaga ásamt jólakveðjum frá fyrirtækjum í Árborg og nágrenni. Klúbburinn vill færa þeim bestu þakkir fyrir stuðninginn.

Fyrri greinEinar áfram formaður SUB
Næsta greinEkki byrjað að sekta strax