Lína Björg ráðin byggðaþróunarfulltrúi

Lína Björg Tryggvadóttir. Ljósmynd/Aðsend

Lína Björg Tryggvadóttir hefur verið ráðin byggðaþróunarfulltrúi fyrir sveitarfélögin fjögur í Uppsveitum Árnessýslu; Hrunamannahrepp, Skeiða- og Gnúpverjahrepp, Grímsnes- og Grafningshrepp og Bláskógabyggð og mun hún hefja störf í byrjun september.

Lína Björg er viðskiptafræðingur og er að ljúka mastersnámi í sjávarbyggðafræðum, þverfræðilegu meistaranámi þar sem fengist er við þróun byggða í fortíð og framtíð, auk diplómu í opinberri stjórnsýslu.

Lína Björg var verkefnastjóri í byggðaþróunardeild Vestfjarðastofu í átta ár og áður útibússtjóri Motus/Intrum á Vestfjörðum.

Byggðaþróunarfulltrúi veitir ráðgjöf og handleiðslu á sviði atvinnu- og byggðaþróunar, vinnur að upplýsingaöflun, miðlun upplýsinga og svæðisbundnum verkefnum á sviði byggðaþróunar, auk þess kemur hann að ferðatengdum málum og fjölmenningu. Byggðaþróunarfulltrúi sinnir verkefnum í samráði við sveitarfélögin fjögur og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga.

Fyrri greinFöstudagslagið: Myndbandið fór í sjóinn
Næsta greinÆgismenn fallnir – Svekkjandi tap á Skaganum