Lilja ráðin forstöðumaður

Lilja í sínu náttúrulega umhverfi. Ljósmynd/nattsa.is

Stjórn Náttúrustofu Suðausturlands hefur ráðið Lilju Jóhannesdóttur frá Sléttabóli á Skeiðum í starf forstöðumanns Náttúrustofu Suðausturlands. Lilja tekur við starfinu þann 1. apríl næstkomandi.

Lilja er með doktorspróf í líffræði frá Háskóla Íslands og með M.Sc. og B.Sc. gráðu í náttúru- og umhverfisfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Hún hefur starfað hjá stofunni undanfarin fjögur ár, en var áður hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi.

Störf hennar hjá Náttúrustofu Suðausturlands hafa mestmegnis tengst vistfræði- og fuglarannsóknum en hún hefur einnig komið að öðrum fjölbreyttum störfum og lagt metnað sinn í að kynna rannsóknir og viðfangsefni stofunnar á opinberum vettvangi.

Í tilkynningu frá Náttúrustofunni segir að Lilja þekki vel til starfsemi Náttúrustofunnar og hafi víðtæka reynslu af náttúrufræðirannsóknum og styrkumsóknum. „Framtíðarsýn Lilju rímar vel við þá framtíðarsýn sem stjórn hefur varðandi rekstur Náttúrustofunnar og treystir stjórn henni fyrir því að leiða þá vinnu,“ segir í tilkynningunni.

Fyrri greinSunnlendingar heiðraðir á ársþingi FRÍ
Næsta greinGóð í að gera tilbúinn grjónagraut betri