Jóhanna Lilja Þrúðmarsdóttir, Skarði í Þykkvabæ, var útnefnd samborgari ársins 2025 í Rangárþingi ytra en viðurkenningin var afhent í kaffisamsæti eldri borgara í íþróttahúsinu í Þykkvabæ síðastliðinn laugardag.
Þetta er í þriðja sinn sem samborgari sveitarfélagsins er valinn en ár hvert kallar markaðs-, menningar- og jafnréttismálanefnd eftir tilnefningum.
Samborgari getur verið hver sá sem hefur á einhvern hátt þótt skara fram úr með störfum sínum í sveitarfélaginu, hvort heldur sem er í atvinnu- eða félagslífi, með manngæsku, dugnaði eða öðru sem eftirtekt hefur vakið.
Fjöldi tilnefninga bárust og auk Lilju fengu þær Jóna H. Valdimarsdóttir í Raftholti 2 og Þórunn Ragnarsdóttir í Reiðholti einnig sérstaka viðurkenningu fyrir störf sín í þágu samfélagsins.
Hjartað í Þykkvabænum
Lilja er kartöflubóndi á bænum Skarði í Þykkvabæ en hefur samhliða því verið einn af máttarstólpum samfélagsins í sjálfboðavinnu. Í umsögn Lilju kemur fram að hún hafi um áratugaskeið verið ómetanlegur drifkraftur í samfélaginu í Þykkvabæ. Hún hefur verið virkur þátttakandi og leiðtogi, tekið þátt í flestum viðburðum, starfað með kvenfélaginu og sinnt íþróttahúsinu og umhverfi þess með miklum sóma. Hún hefur unnið ómælda sjálfboðavinnu og hún er manneskjan sem flestir leita til ef um er að ræða verkefni og hugmyndir sem tengjast Þykkvabæ. Margir kalla Lilju „hjartað í Þykkvabænum“.
Lilja var stödd erlendis og gat ekki veitt viðurkenningunni móttöku í eigin persónu en sonur hennar, Ómar Páll Sigurbjartsson, tók við viðurkenningunni fyrir hönd móður sinnar.

Mannbætandi dugnaðarforkur
Jóna Valdimarsdóttir í Raftholti er bóndi og virkur meðlimur í kvenfélaginu Einingu. Hún fékk sérstaka viðurkenningu fyrir ómetanleg störf í þágu samfélagsins. Aðrar félagskonur bera henni einstaklega vel söguna úr starfi kvenfélagsins, segja hana duglegasta allra og láti ekkert stoppa sig í að taka virkan þátt. Samferðafólk Jónu segir hana einstaklega góða manneskju sem vilji öllum vel og að það sé hreinlega mannbætandi að þekkja hana.
Falinn demantur
Þórunn Ragnarsdóttir í Reiðholti fékk einnig sérstaka viðurkenningu fyrir ómetanleg störf í þágu samfélagsins. Þórunn hefur verið afar virk í samfélaginu um áratugaskeið og látið margt gott af sér leiða. Samferðafólk hennar ber henni afar vel söguna, segir Þórunni velviljaða, jákvæða og viljuga til allra verkefna. Þórunn hefur meðal annars setið í sóknarnefnd Árbæjarkirkju í áratugi. Hún var framkvæmdastjóri félags eldri borgara í 13 ár og skipulagði ótal viðburði og ferðir. Hún hefur setið í stjórn Sambands sunnlenskra kvenna og setið í sveitarstjórn. Þórunn hefur verið falinn demantur í áratugi en birtist sveitungum sínum snemma á ævinni sem „símadama“ þegar sveitasíminn var í Meiri-Tungu. Hún var röddin sem allir þekktu.


