Líkur á málaferlum vegna minkabús

Allar líkur eru á málaferlum vegna ákvörðunar meirihluta hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps um að fallast á deiliskipulagstillögu þar sem gert er ráð fyrir nýju minkabúi á spildu úr landi Ása í Gnúpverjahreppi.

Eftir því sem heimildir Sunnlenska segja munu landeigendur í grennd við fyrirhugað bú, sem gerðu athugasemdir við deiliskipulagið, ætla sér að beita öllum mögulegum ráðum til að koma í veg fyrir að minkabúið rísi á ætluðum stað.

Málið hefur valdið miklum deilum innan sveitar í Gnúpverjahreppnum og innan sveitarstjórnar, þar sem oddvitinn, Gunnar Örn Marteinsson var einn mótfallinn deiliskipulagstillögunni. Mun hafa orðið nokkur hávaði að afloknum sveitarstjórnarfundi í síðustu viku þegar fjórir af fimm sveitarstjórnarmönnum höfðu samþykkt tillöguna.

Gunnar Örn oddviti hefur lýst því yfir að hann telji sveitarfélagið geta verið skaðabótaskylt og að hann sé mjög ósáttur við þá niðurstöðu að vera einn í minnihluta í þessu máli.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu