Fjárhús austan við byggðina í Vík í Mýrdal skolaðist á haf út um klukkan átta í morgun í miklu brimi og öldugangi.
Björgunarsveitin Víkverji vann að því í dag að því að bjarga verðmætum úr hesthúsum sem eru á svæðinu. Stórstraumsflóð var í nótt þegar óvenju há ölduhæð úr suðaustri, miðað við árstíma, skall á suðurströndina og hefur mikill sjór gengið á land. Óttast er að annað hús fari í sjóinn þegar fellur að í kvöld.
Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að fjárhúsið sem eyðilagðist hafi verið staðsett austan við skilgreinda varnarlínu. Á sínum tíma hafi verið tekin ákvörðun um að verja byggðina í Vík fyrir sjávargangi og þá jafnframt að byggð austan við hana yrði ekki varin, en líklegt væri að á einhverjum tímapunkti mundi sjór eyðileggja mannvirkin sem þar eru staðsett.
Hvorki fólk né skepnur voru í hættu í morgun en tveggja vikna gömul viðbót ofan á sjóvarnargarðinn mátti sín lítils í briminu og garðurinn rofnaði.
„Sjógangurinn var rosalegur og ölduhæðin er svakaleg og og er með þeim hærri sem ég séð í langan tíma,“ sagði Orri Örvarsson, formaður björgunarsveitarinnar Víkverja, í samtali við mbl í morgun.
Myndirnar hér fyrir neðan eru frá starfsmönnum Vegagerðarinnar.

