Líklegt að jarðskjálftar tengist niðurrennsli jarðhitavatns

Hellisheiðarvirkjun.

Vísindafólk Orku náttúrunnar telur líklegt að röð jarðskjálfta við Húsmúla, vestan undir Hengli, frá því um tíuleytið í gærkvöldi tengist niðurrennsli jarðhitavatns frá Hellisheiðarvirkjun.

Jarðhitavatni sem nýtt er í Hellisheiðarvirkjun hefur síðasta áratuginn verið dælt niður í jörðina aftur eftir að orkan í því hefur verið nýtt í virkjuninni til vinnslu á rafmagni og heitu vatni fyrir hitaveituna á höfuðborgarsvæðinu.

Dæmi eru um að þegar breytingar hafa verið gerðar á niðurdælingu hafi það valdið smáskjálftavirkni á svæðinu. Engar slíkar breytingar voru í gangi þegar skjálftarnir hófust í gærkvöldi. Engu að síður telur vísindafólk Orku náttúrunnar að skjálftarnir tengist þeim spennubreytingum sem langvarandi niðurdæling veldur og fylgjast því grannt með framvindunni, að því er fram kemur í tilkynningu frá ON.

Fyrri greinJarðskjálfti við Húsmúla
Næsta grein90 í einangrun á Suðurlandi