Líklegt að áframhaldandi vinnsla verði leyfð

Ráðgert að taka um 6 milljónir rúmmetra af efni við Bolaöldu í Ölfusi næstu áratugi eða um 200.000 rúmmetra á ári.

Samkvæmt frummatsskýrslu, sem verkfræðistofan Efla hefur tekið saman, um mat á umhverfisáhrifum vegna efnistöku við Bolaöldu þá hefur framkvæmd á þessu svæði óveruleg áhrif á fimm af þeim átta umhverfisþáttum sem skoðaðir eru.

Efnistökusvæðið sem nú er í mati á umhverfisáhrifum er í framhaldi af og samliggjandi þeirri námu sem unnið hefur verið úr á undanförnum áratugum. Heildarflatarmál áætlaðar efnistöku er 36 hektarar og er þá heildar efnisvinnslusvæðið orðið 65 hektarar.

Í námunni er unnið bögglaberg, en það hentar mjög vel sem burðarhæft fyllingarefni undir vegi, götur og byggingar.

Tllaga að framkvæmdinni og skýrsla um mat á umhverfisáhrifum hennar liggur frammi til kynningar til 2. desember, m.a. í ráðhúsinu í Þorlákshöfn. Allir hafa rétt til að kynna sér framkvæmdina og leggja fram athugasemdir. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 2. desember 2010 til Skipulagsstofnunar.