Líkamsárás í sumarbústað

Karlmaður um þrítugt er í haldi lögreglunnar á Selfossi vegna líkamsárásar í sumarbústað í Skeiða- og Gnúpverjahreppi í gærkvöldi.

Maðurinn hafði þar verið staddur ásamt nokkrum vinnufélögum sínum og vinum þegar til ryskinga kom á milli hans og annars manns um klukkan tíu í gærkvöldi. Sá hlaut skurð á höfði og þurfti að leita sér læknisaðstoðar í Laugarási, þar sem sauma þurfti skurðinn saman.

Engin kæra hefur verið lögð fram, en lögregla rannsakar nú tildrög málsins og mun yfirheyra manninn síðar í dag.