Lífsstílsmóttaka á HSU gæti orðið fyrirmynd annarra

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Undanfarin misseri hefur Heilbrigðisstofnun Suðurlands unnið að þróunar- og rannsóknarverkefni fyrir svokallaða lífsstílsmóttöku fyrir börn á heilsugæslustöðvum í umdæminu.

Verkefnið hefur yfirskriftina „Kraftmiklir krakkar“ og hefur það markmið að fást við offitu meðal barna á markvissan hátt. Alma D. Möller heilbrigðisráðherra segir frumkvæði HSU mikilsvert framtak. Verkefnið lofi góðu og hún telji það geta orðið fyrirmynd að sambærilegri þjónustu á heilbrigðisstofnunum um allt land. Horft verði til þess við mótun aðgerðaáætlunar gegn offitu sem unnið sé að í ráðuneytinu.

Ítarlega er sagt frá verkefninu Kraftmiklir krakkar á vef HSU. Það kemur fram að verkefnið hafi gengið vel og að mikil ánægja ríki með það og árangur þess hjá bæði börnum og foreldrum. Eins og fram kemur í umfjöllun HSU hefur offita barna aukist hratt síðustu ár, jafnt á heimsvísu og á Íslandi. Í dag eru tæplega 8% grunnskólabarna á Íslandi með offitu og er hlutfallið um 10% á landsbyggðinni en um 6% á höfuðborgarsvæðinu. Þótt til séu klínískar ráðleggingar um meðferð við offitu eru engin þverfagleg þjónustuúrræði í boði í heimabyggð úti á landsbyggðinni.

„Við þurfum markvissa þjónustu eins og HSU er að þróa sem er aðgengileg í öllum heilbrigðisumdæmum,“ segir Alma D. Möller. „Þannig væri hægt að grípa fljótt inn í aðstæður og aðstoða börn og forráðamenn þeirra áður en vandinn verður stór. Við höfum Heilsuskóla Barnaspítala Hringsins sem er mjög mikilvægt úrræði á þessu sviði með þverfaglegri teymisþjónustu þar sem unnt er að sinna alvarlegum einkennum offitu og fylgiskjúkdómum. En við þurfum snemmtæk úrræði og fyrirbyggjandi aðgerðir til að sporna við þróun vaxandi offitu.“

Öflugur hópur sérfræðinga
Stjórnandi verkefnisins hjá HSU er Vignir Sigurðsson, sérfræðingur í barnalækningum, en hann lauk doktorsnámi í barnalæknisfræði frá Gautaborgarháskóla árið 2021 með bólgusjúkdóma í meltingarvegi barna sem viðfangsefni. Vignir hefur umtalsverða reynslu af meltingar- og næringarvandamálum barna. Að verkefninu kemur öflugur hópur heilbrigðisstarfsfólks; hjúkrunarfræðingarnir Bjarnheiður Böðvarsdóttir og Þorbjörg Anna Steinarsdóttir og sérnámslæknarnir Íris Óskarsdóttir og Eyrún Anna Stefánsdóttir.

Fyrri greinVesturfarabekkurinn vígður á Bakkanum
Næsta greinVegleg gjöf frá slysavarnardeildinni til Strandheima