„Lífsgæðin haldast lengur“

Ljósmynd/Páll M. Skúlason

Í vetur hefur fólk sem er eldra en 60 ára hist í Selfosshöllinni og stundað þar margvíslega hreyfingu undir styrkri handleiðslu Berglindar Elíasdóttur, íþrótta- og heilsufræðings.

Nýverið var síðasti tíminn fyrir sumarfrí og má segja að hópurinn bíði spenntur eftir því að æfingar hefjist aftur í ágúst, enda ómissandi partur af lífi marga og þá ekki síst félagslífinu.

Heilsueflingin er á vegum Sveitarfélagsins Árborgar og hefur staðið í boði fyrir íbúa sveitarfélagsins sem eru 60+ síðan haustið 2021. Tímarnir eru íbúum að kostnaðarlausu.

Varð fljótt stór hópur
„Við byrjuðum úti á íþróttavelli á meðan var verið að leggja lokahönd á Selfosshöllina og svo passaði það til að við komumst inn í höll þegar veturinn var að skella á. Það var lagt upp með að hafa einn hóp tvisvar sinnum í viku en fjöldinn var strax svo mikill að skipta þurfti hópnum upp í tvo og er það þannig ennþá,“ segir Berglind, sem hefur séð um heilsueflinguna frá upphafi, í samtali við sunnlenska.is.

„Í janúar 2021 bættum við svo við hóp á Eyrarbakka sem æfir í íþróttahúsinu á Stað tvisvar sinnum í viku. Haustið 2022 bættist við hópur á Stokkseyri í íþróttahúsið þar, sem æfir einu sinni í viku. Þetta eru því fjórir hópar samtals, um 150 manns.“

Góð heilsa er ekki bara líkamleg
Í tímunum er mesta áherslan lögð á styrktarþjálfun. „Rannsóknir hafa sýnt að styrktarþjálfun er einn mikilvægasti þátturinn til að hægja á aldurstengdri vöðvarýrnun. Einnig þjálfum við þol, jafnvægi og lipurð. Ég legg áherslu á að mæta hverjum og einum þar sem hans geta er og létti eða þyngi æfingarnar eftir því. Heilsan er líkamleg, andleg og félagsleg og eflum við alla þessa þætti.“

Mikil aðsókn er í tímana og hefur iðkendum fjölgað jafnt og þétt síðan þeir hófust. „Í fyrsta tímann sem haldinn var á íþróttavellinum 2021 mættu áttatíu manns og var það langt umfram mínar væntingar á þeim tíma. Þá var strax farið í að tvískipta hópum og svo hefur fjöldinn haldist vel síðan og bara aukist. Þegar mest er eru um sextíu manns í hvorum hóp í Selfosshöllinni,“ segir Berglind og bætir því við að kynjahlutfallið sé nokkuð jafnt í hópunum.

Mikilvægt að vera ábyrgur fyrir sinni eigin heilsu
Hreyfing er mikilvæg fyrir alla og þá sérstaklega fyrir þá sem eldri eru. „Það er virkilega mikilvægt fyrir þennan aldurshóp að stunda hreyfingu og huga að heilsunni, vera ábyrgur fyrir eigin heilsu. Ávinningurinn er svo mikill og lífsgæðin haldast lengur, fólk getur búið sjálfstætt lengur og lifað innihaldsríkara lífi lengur,“ segir Berglind.

„Heilsuefling 60+ hefst aftur eftir sumarfrí um miðjan ágúst. Tímarnir eru í boði fyrir alla 60 ára og eldri í Árborg og má mæta í hvaða tíma sem er, á Selfossi, Eyrarbakka eða Stokkseyri, óháð búsetu í Árborg. Engin skráning fer fram, bara mæta þegar hentar. Til þerra sem hafa ekki prófað, ég skora á ykkur að mæta í haust,“ segir Berglind að lokum.

Páll M. Skúlason tók þessar fínu myndir hér að neðan í síðasta tímanum og gaf sunnlenska.is leyfi til að nota.

Heilsuefling 60+ Árborg á Facebook

Fyrri greinÓgnaði fólki með hnífi á Hvolsvelli
Næsta greinHákon bjargaði stigi fyrir Stokkseyri