Lifnar yfir Litlasjó

Litlisjór hefur heldur betur lifnað við frá því sem var í byrjun veiðitímans í Veiðivötnum. Í þriðju viku komu 980 fiskar á land í Litlasjó en þeir voru 340 í sömu viku í fyrra.

Einnig veiðast þar stærri fiskar en áður. Meðalþyngdin í Litlasjó er 2.79 pund. Níu punda fiskur kom þar á land í vikunni.

Einnig veiddist vel í Stóra Fossvatni, Skálavatni, Snjóölduvatni, Nýjavatni og Langavatni. Sex punda bleikja kom á land í Nýjavatni í vikunni.

Heldur hefur dregið úr veiði í Grænavatni, en fiskarnir sem koma á land eru stórir og feitir. Meðalþyngdin í Grænavatni er 4,19 pund. Enn stærri eru þó fiskarnir í Ónefndavatni. Þar er meðalþyngdin 5,27 pund.

Í þriðju viku komu 2.269 fiskar á land í Veiðivötnum. Heildarveiðin er komin í 7.907 fiska og meðalþyngdin 2,02 pund.