Lífland opnar verslun á Selfossi

Guðbjörg Jónsdóttir, verslunarstjóri, býður fólki að ganga í bæinn frá og með næsta föstudegi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lífland lýkur upp dyrum að nýrri verslun á Selfossi í björtum og rúmgóðum húsakynnum að Austurvegi 69 næstkomandi föstudag.

„Við höfum um árabil verið í mjög góðu samstarfi við Baldvin & Þorvald sem hefur selt mikið af okkar vörum, en þar sem þau ákváðu í sumar að hætta verslunarrekstri og einbeita sér að söðlaverkstæðinu sínu, þá ákváðum við að láta til skarar skríða, enda Selfoss og nærumhverfi mjög mikilvægt landbúnaðarsvæði. Með nýrri verslun verður stór bætt aðgengi að vörum og auknu vöruvali fyrir bændur, hestamenn, sumarhúsa- og gæludýraeigendur,“ segir Guðbjörg Jónsdóttir, verslunarstjóri Líflands á Selfossi, í samtali við sunnlenska.is.

Karlakór og kaka á laugardaginn
„Í tilefni opnunarinnar verður slegið upp opnunarhátíð laugardaginn 1. október fyrir gesti og gangandi sem vilja fagna með okkur. Í boði verða glæsileg opnunartilboð og glaðningur fyrir börn. Þá verða í boði grillaðar pylsur, flatkökur, kaffi og kaka frá kl. 12-15 auk þess sem Karlakór Hreppamanna stígur á stokk og tekur nokkur lög að sunnlenskum sveitasið. Að auki verður einn heppinn vinningshafi dreginn úr Lífland Selfossi hópnum á Facebook sem vinnur 25.000 króna úttekt í versluninni.“

Guðbjörg segir að þau bindi miklar vonir við að nærumhverfið taki nýrri verslun Líflands fagnandi og hlakka þau til að taka á móti sem flestum á opnunarhátíðinni á laugardaginn.

Allt frá reiðtygum til girðingarefnis
„Verslunin býður upp á fjölbreytt úrval af búrekstrar- og landbúnaðarvöru svo sem áhöldum, hreinlætisvörum, fóðri og bætiefnum. Hjá Líflandi er einnig breitt úrval af girðingarefnum, meindýravörnum, gæludýravöru, útivistarfatnaði og allt til hestamennsku svo sem reiðfatnaður, skeifur, fóður, reiðtygi og undirburður.“

Sem fyrr segir er verslunarstjórinn á Selfossi Guðbjörg Jónsdóttir en hún er mörgum sunnlenskum bændum kunn. Fyrir þá sem ekki vita þá er hún fyrrverandi kúabóndi sem hefur meðal annars unnið að félagsmálum bænda í gegnum árin. Með henni verða Sjöfn Finnsdóttir og Guðrún Margrét Valsteinsdóttir sem báðar eru nýlega fluttar í Flóann.

Með nýju versluninni verða verslanir Líflands alls sex talsins, en fyrir eru verslanir á Akureyri, Blönduósi, Borgarnesi, Reykjavík og Hvolsvelli sem er ætlað að bæta þjónustu í heimabyggð við bændur og aðra íbúa eða ferðamenn á svæðinu.

Fyrri greinTeboð með hænum og listasmiðja
Næsta greinHamar-Þór komst ekki á flug