„Lífið á líka að vera skemmtilegt“

Kári Böðvarsson ásamt nemendum úr Grunnskólanum í Þorlákshöfn. Ljósmynd/Elliði Vignisson

Síðastliðinn laugardag voru tvær nýjar og stórglæsilegar vatnsrennibrautir opnaðar í sundlauginni í Þorlákshöfn. Fjöldi gesta voru viðstaddir opnunina í frábærri stemningu.

Vatnsrennibrautirnar, sem hafa fengið nöfnin Slangan og Drekinn, voru opnaðar formlega með viðhöfn klukkan 13:00 á laugardaginn. Kári Böðvarsson, fulltrúi eldri borgara og fastagestur í sundlauginni, vígði Slönguna með því að renna sér niður um hana með miklum tilþrifum.

Máltækið „maður hættir ekki að leika sér af því maður verður gamall, maður verður gamall af því að maður hættir að leika sér“ á vel við Kára sem er síungur og hress, 78 ára gamall drengur. Ljósmynd/Anna Margrét Káradóttir

Að því loknu fylgdu börn úr Grunnskóla Þorlákshafnar og skemmtu sér allir konunglega. Viðstaddir segja stemninguna hafa verið frábæra en mikil eftirvænting, spenna og gleði ríkti meðal gesta sem prófuðu nýju brautirnar. Sundgestum var boðið upp á heitt súkkulaði og piparkökur að sundferð lokinni.

„Við höfum verið að vinna í mjög mörgum stórum verkefnum hér í Ölfusi sem flest tengjast grunninnviðum eins og byggingu nýs leikskóla, fráveitu, stækkun hafnarinnar, gatnagerð, ný dagdeild fyrir aldraða, stækkun grunnskóla og fleira. Þessi framkvæmd með rennibrautirnar kemur úr annarri átt. Þær eru ekki byggðar til að mæta þörf heldur til að gera lífið skemmtilegra, og það skiptir ekki litlu. Við viljum að bæjarbúar finni að þegar það gengur vel þá njóta allir,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, í samtali við sunnlenska.is.

Vatnsrennibrautirnar Slangan og Drekinn eru grænu og bláu rennibrautirnar á myndinni. Vatnsrennibrautirnar eru því orðnar þrjár í sundlauginni í Þorlákshöfn og enn ríkari ástæða til að skella sér í sund í þessari frábæru sundlaug. Ljósmynd/Teddi Owen

Meðalaldur íbúa fer lækkandi
Með nýju vatnsrennibrautunum eru rennibrautirnar orðnar þrjár í einni vinsælustu sundlaug Suðurlands. „Við byggðum tvær nýjar rennibrautir sem bætast við litla barnarennibraut sem var fyrir. Önnur nýja brautin fékk nafnið Slangan en hún er 80 metra löng og um 10 metra há. Hin, sem fékk nafnið Drekinn, er rúmlega 50 metra löng, lokuð braut, sem endar í keilu og sérlendingu.“

„Við erum svo heppin hér í Ölfusi að til okkar streyma barnafjölskyldur. Ár eftir ár fjölgar íbúum hratt og samhliða lækkar meðalaldur íbúa og þá sérstaklega í Þorlákshöfn. Þetta leggur á okkur þá skyldu að treysta innviði fyrir börn og foreldra þeirra. Auðvitað skipta grunninnviðirnir mestu en lífið á líka að vera skemmtilegt,“ segir Elliði að lokum.

Ungir sem aldnir una búsetu sinni í Þorlákshöfn vel því að þar er lífið líka skemmtilegt. Ljósmynd/Anna Margrét Káradóttir
Fyrri greinGul jól á Suðurlandi