Líf og fjör í bæjargarðinum

Það er mikið um að vera í bæjargarðinum við Sigtún á Selfossi þar sem íbúar Árborgar halda upp á þjóðhátíðardaginn.

Hátt í þrjú þúsund manns tóku þátt í skrúðgöngu um götur Selfossbæjar sem endaði í bæjargarðinum við Sigtún. Þetta er í fyrsta skipti sem bæjargarðurinn er notaður á þjóðhátíðardaginn og ekki annað að sjá en að fólk tæki vel í þá breytingu.

Að loknu ávarpi fjallkonu og fánahyllingu flutti Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs, hátíðarræðu en síðan tók við fjölbreytt skemmtidagskrá fyrir alla fjölskylduna.

Það er Björgunarfélag Árborgar sem hefur veg og vanda af dagskránni sem lýkur í kvöld með harmonikkuballi í Tryggvaskála og unglingaballi í bæjargarðinum.