Líf og fjör á lögregluuppboði

Fjölmenni var á árlegu uppboði á reiðhjólum og öðrum óskilamunum í vörslu lögreglunnar á Selfossi sem fór fram í dag.

Meðal muna á uppboðinu voru raftæki, skartgripir, styttur og sólgleraugu. Hart var barist um ýmsa muni, sérstaklega raftækin. Þannig fór ASK skjávarpi á 26 þúsund krónur og iPod Nano á 16 þúsund. Dýrustu tækin á uppboðinu voru tveir flatskjáir sem voru slegnir á u.þ.b. 70 þúsund krónur hvor.

Einnig var Barbie taska með leikföngum eftirsótt en hún fór á 2.000 krónur. Bestu kaupin gerði hins vegar Magnús Hlynur Hreiðarsson, fréttamaður á RÚV, sem eignaðist forláta basthatt fyrir 800 krónur. Magnús mun vonandi skarta hattinum góða í Sjónvarpsfréttunum fljótlega.

Gunnar Örn Jónsson, fulltrúi sýslumanns, stjórnaði uppboðinu af röggsemi og naut við það aðstoðar lögreglumanna. Á fimmta tug muna var boðinn upp og punguðu uppboðsgestirnir samtals út 404.800 krónum.