Líf og fjör á Kótelettunni

Fjöldi fólks hefur lagt leið sína í Hrísmýri á Selfossi í dag og skemmt sér á fjölskyldu- og grillhátíðinni Kótelettunni sem nú er haldin í þriðja sinn.

Hátíðin hófst í gærkvöldi með tónleikum og dansleikjum sem voru ágætlega sóttir og allt fór vel fram.

Í dag var fírað upp í grillunum og gátu gestir og gangandi bragðað á margskonar kjöti auk þess að skoða markaði og sölubása.

Fjölskylduskemmtun var á stóra sviðinu í dag þar sem Sveppi krull stýrði dagskránni. Meðal þeirra sem komu fram voru Blár ópal, Söngvaborg og Einar töframaður.

Í kvöld eru tónleikar á útisviði við Hvítahúsið þar sem fram koma Dúndurfréttir, Páll Óskar, Blaz Roca og Friðrik Dór, Sálin, Heiðar Austmann og Rikki G. Inni í Hvítahúsinu spila Björgvin Halldórs og Buff fram í nóttina og Stuðlabandið tekur við kyndlinum kl. 3 í nótt.

Fyrri greinBjöllukór og fuglaskoðun á Sólheimum
Næsta greinÆsispennandi keppni hjá konunum