Líður vel í hjartanu eftir svona dag

Röskir sjálfboðaliðar pökkuðu gjöfunum í poka fyrir úthlutunina. Ljósmynd/Aðsend

Úthlutað var úr Sjóðnum góða í Selinu á Selfossi í dag. Umsóknir um styrki úr sjóðnum hafa aldrei verið fleiri en í ár en 186 umsóknir bárust sjóðnum.

Í fyrra voru þær um 130 en vert er að geta þess að á bak við hverja umsókn eru venjulega nokkrir einstaklingar. Í síðustu viku barst neyðarkall frá Sjóðnum góða þar fjöldi umsókna var svo mikill.

Neyðarkallinu var svarað og áttum við fyrir allri úthlutuninni og þurftum ekki að lækka framlagið,“ segir Erla G. Sigurjónsdóttir, deildarstjóri Árnessýsludeildar Rauða krossins, í samtali við sunnlenska.is.

„Við fengum gjafakort frá Nettó og Krónunni. Það hefði mátt vera meira af gjöfum frá verslunum á svæðinu – tína í poka og koma með til okkar. Við erum aftur á móti óendanlega þakklát öllum sem lagt hafa sjóðnum lið. Maður verður svo glaður þegar þessu jólaverki er lokið.“

Erla segir að það hafi gengið vel að úthluta í dag. „Við reynum að hafa góða stemningu til að létta þessi spor fólks. Eftir svona daga líður manni svo vel í hjartanu – stærsta góðverk ársins og með þessum frábæra hóp sem stendur á bak við Sjóðinn góða væri þetta ekki framkvæmanlegt. Það eru allir tilbúnir að hjálpa eins og t.d. Flytjandi sem tók allan pappa hjá okkur. Við fengum lánað húsnæði til að pakka matnum hjá Jóni Páls. TRS lánaði síma og tölvur. Nettó gaf okkur poka og Arion banki gaf kortin. Nettó og Krónan gáfu kort og fjöldi einstaklinga, fyrirtækja og félagasamtaka lagði inn á reikninginn hjá okkur,“ segir Erla að lokum.

Ljósmynd/Aðsend

Fyrri greinGert ráð fyrir jákvæðum rekstri í Rangárþingi eystra
Næsta greinTónleikar á síðasta sunnudag í aðventu