Lið FSu komið í úrslit Gettu betur

Elín, Ásrún Aldís og Heimir himinlifandi eftir sigurinn í kvöld. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir

Lið Fjölbrautaskóla Suðurlands er komið í úrslit í spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, í fyrsta skipti í 37 ár eftir glæsilegan sigur á Verkmenntaskóla Austurlands í sjónvarpskeppni kvöldsins.

Keppnin var æsispennandi lengst af og mikið jafnræði með liðunum, staðan var 15-15 eftir hraðaspurningarnar og VA komst yfir í upphafi bjölluspurninganna, 21-17. FSu hafði hins vegar töglin og hagldirnar á lokasprettinum og vann að lokum öruggan sigur, 31-26.

Úrslit Gettu betur fara fram föstudaginn 17. mars og verða í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu frá Hljómahöllinni í Reykjanesbæ. Það verður mótherjinn lið Menntaskólans í Reykjavík.

Þetta er í annað skiptið í sögu keppninnar sem lið FSu kemst í úrslit en árið 1986 fór FSu alla leið og sigraði, en það var í fyrsta skipti sem spurningakeppni framhaldsskólanna var haldin.

Lið FSu skipa þau Elín Karlsdóttir frá Eyrarbakka, Ásrún Aldís Hreinsdóttir frá Selfossi og Heimir Árni Erlendsson frá Skíðbakka III í Austur-Landeyjum.

Fyrri greinEyjamenn sigldu heim með stigin
Næsta greinHamar vann nágrannaslaginn – Hrunamenn töpuðu