Leynibúðin opnar á Selfossi

Næstkomandi laugardag mun Leynibúðin flytja formlega inn í verslunina Kastalann á Selfossi.

„Leynibúðin er litrík og skemmtileg búð með vörur fyrir ungt fólk á öllum aldri. Þar er íslensk hönnun saumuð á staðnum í „steam punk“, „street“ og „pop“ stíl ásamt annarri gjafavöru og sker sig þannig frá öllum öðrum búðum á Íslandi,“ segir Hulda Dröfn Atladóttir fatahönnuður og annar eigandi Leynibúðarinnar.

„Leynibúðin var til húsa á Laugavegi 55 í Reykjavík síðastliðin 6 ár en þar sem ég Selfyssingur í húð og hár og ný flutt aftur í heimahagana þá fannst okkur tilvalið að opna útibú Leynibúðarinnar í Kastalanum við Eyraveg 5,“ segir Hulda en hún rekur verslunina ásamt Lindu Ósk Guðmundsdóttur fatahönnuði.

„Við framleiðum sjálfar alla okkar hönnun ásamt því að flytja inn fylgihluti og gjafavöru í stíl við okkar hönnun. Við verðum með vinnuaðstöðu í Kastalanum þannig að okkar dót kemur sjóðheitt fram í búð Mariu Marko eiganda Kastalans og Sunnlendingar fá það allra ferskasta undan saumnálinni,“ segir Hulda.

Hingað til hefur Kastalinn verið með vinsælar vörur frá Leynibúðinni, dæmi um það eru feðgaslaufurnar, sem Sunnlendingar hafa tekið mjög vel, tannhjólahálsmenin og hárböndin.

Kastalinn og Leynibúðin bjóða öllum í opnunarteiti þann 1. apríl og þá verða vegleg opnunartilboð og léttar veitingar.


Leynibúðin er litrík og skemmtileg búð með vörur fyrir ungt fólk á öllum aldri.


Kastalinn og Leynibúðin bjóða öllum í opnunarteiti þann 1. apríl.