Leyndarmálið verðlaunað

Fyrirtækið Engifer ehf. sem framleiðir My Secret vörurnar vann á dögunum alþjóðleg verðlaun, Water Innovation Award, fyrir drykkinn Aada.

Verðlaunin eru veitt fyrirtækjum sem gera framúrskarandi hluti þar sem aðal uppistöðuefnið er vatn með virkni. Áttatíu framleiðendur frá 25 löndum tóku þátt í keppninni.

Keppt var í ellefu flokkum og var Aada drykkurinn tilnefndur í fjórum þeirra; besta vatn með virkni, besta nýja fyrirtækið, besta framleiðsluferlið og besta hráefnið en þetta er í fyrsta sinn sem sami drykkurinn fær svo margar tilnefningar. Aada fékk fyrstu verðlaun fyrir besta hráefnið og spilar íslenska vatnið þar stórt hlutverk.

Engifer ehf er með skrifstofu í Kópavogi en framleiðslan fer fram í Hveragerði þar sem jarðgufa er notuð til að gera hana sem umhverfisvænasta.

“Það að jarðgufa sé notuð við framleiðsluna hefur vakið gríðarlega athygli meðal erlendra aðila sem finnst sú aðferð frábær,” sagði Anna María Jónsdóttir, annar eigenda fyrirtækisins, í samtali við Sunnlenska.