„Leyndardómar Suðurlands“ lengja ferðamannatímabilið

„Leyndardómar Suðurlands“ er kynningaátak á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og Markaðsstofu Suðurlands sem stendur yfir frá miðvikudeginum 26. mars til sunnudagsins 6. apríl nk.

Þetta er umfangsmikið kynningarátak á Suðurlandi þar sem ferðaþjónustufyrirtækjum, matvælaframleiðendum, félögum, fyrirtækjum, stofnunum, einstaklingum og öllum öðrum áhugasömum er boðið að taka þátt í.

Markmiðið er að kynna sem mest af Suðurlandi og fá sem flesta gesti til að heimsækja Suðurland. Megininntakið í átakinu er Matur – Saga – Menning. Í tilkynningu frá forsvarsmönnum verkefnisins segir að hér sé kærkomið tækifæri, til að lengja ferðamannatímabilið og koma öllum leyndardómum Suðurlands á framfæri. Markhópurinn eru allir Íslendingar.

Á Suðurlandi eru mörg leyndarmál, sem eru vel þess virði að deila, en “leyndarmál” – er einmitt boðskapur ársins í herferð Íslandsstofu, “Ísland allt árið” . Með því að blása í herlúðra Sunnlendinga samtímis er mögulegt að ná samlegð milli verkefna. Dæmi um atburði þessa daga gætu verið tilboð á veitingastöðum, tveir fyrir einn í gistingu, ókeypis í sund, listsýningar, tónleikar, skemmtanir, tilboð á sunnlenskum vörum, lengdur opnunartími verslana , ókeypis í strætó, tilboð í afþreyingu, opin hús víða í fjórðungunum og fleira og fleira.

Hægt er að fylgjast með framvindu verkefnisins á heimasíðu SASS og á fésbókarsíðu þess. Hafi fólk einhverjar góðar hugmyndir um „leyndardóma“, sem hægt væri að koma á framfæri er best að setja sig í samband við Magnús Hlyn Hreiðarsson, nýráðinn kynningarfulltrúa verkefnisins.

Umrætt átak hafði áður vinnuheitið „Hinn árlegi Suðurlandsskjálfti“ en nafninu var breytt eftir að bæjarráð Hveragerðis gerði athugasemdir við nafnið.

Fyrri greinBúist við stormi víða – Blindhríð á Hellisheiði
Næsta greinDagbók lögreglu: Hnökkum stolið á Stokkseyri