Leyndardómaátakið hefst í dag

Í dag kl. 14 hefst umfangsmikið kynningarátak á Suðurlandi, sem kallast „Leyndardómar Suðurlands“ og stendur það í tíu daga, eða til sunnudagsins 6. apríl.

Ráðherrar Suðurkjördæmis, þau Ragnheiður Elín Árnadóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson, ásamt Gunnari Þorgeirssyni, formanni Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga munu opna leyndardómana formlega með borðaklippingu við Litlu Kaffistofuna.

„Leyndardómar Suðurlands“ eru á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga en markmiðið er að kynna sem mest af Suðurlandi og fá sem flesta gesti til að heimsækja Suðurland. Megininntakið í átakinu er Matur – Saga – Menning. Um tvöhundruð viðburðir eru skráðir í leyndardómana í öllum sveitarfélögum á Suðurlandi.

Frítt verður í strætó í boði Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga alla tíu daga leyndardómanna frá Mjódd í Reykjavík um allt Suðurland samkvæmt leiðakerfi Strætó. Sömu sögu er að segja frá Suðurlandi til Reykjavíkur.

Meðal viðburða á næstu dögum má nefna tónleika með Lay Low í Héraðsskólanum á Laugarvatni, afríska matarupplifun á Flúðum, fjölskyldufjör í Hveragerði með Ingó Veðurguð, hænubingó á Selfossi og Eyrarbakka, frítt í sund á Hellu, gómsæta fiskvinnslu í Þorlákshöfn, kartöfluball í Þykkvabæ, jeppaferðir á Eyjafjallajökul, íþróttadag fjölskyldunnar í Vík í Mýrdal og frían þriggja rétta matseðill á Klausturbleikju á Hótel Kirkjubæjarklaustri.