Leyfa útsýnispall sem má ekki sjást

Rangárþing eystra hyggst setja upp útsýnispall ofan og austan við Skógafoss.

Jafnframt á að koma fyrir göngutröppu við Seljalandsfoss. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.

„Gróðurfar hefur látið stórlega á sjá á undanförnum árum og með útsýnispallinum skal reynt að draga úr þeirri þróun um leið og ferðamönnum er gefið einstakt tækifæri til þess að upplifa þennan foss ofan frá. Um leið er dregið úr þeirri hættu sem í dag stafar frá svæðinu og þá fyrst og fremst frá einstigum sem leiða fram á klettanibbur við fossinn,” segir í umsókn Rangárþings eystra til Umhverfisstofnunar.

Útsýnispallurinn á að rúma þrjátíu til fjörtíu manns og snúa þannig að hann sé í hvarfi þegar horft er á Skógafoss neðan frá. Umhverfisstofnun samþykkti pallinn með þessu skilyrði. Að auki á pallurinn að vera þannig að hægt sé að fjarlægja hann án sýnilegra ummerkja.

Sveitarfélagið vill einnig setja upp göngutröppu við Seljalandsfoss. Afgreiðsla þess erindis hefur ekki borist sveitarstjórninni. Trappan á að draga úr slysahættu.