Lést þegar húsbíll brann í Grafningnum

Um kl. 13:30 í dag barst lögreglunni á Suðurlandi tilkynning um mikið brunnin húsbíl í landi Torfastaða í Grafningi og taldi tilkynnandi mögulegt að maður hafi verið í bílnum þegar eldurinn kom upp.

Rannsókn leiddi í ljós að í bílnum voru líkamsleifar sem taldar eru af manni á fertugs aldri og hefur aðstandendum hans verið tilkynnt um málið.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi segir að það liggi fyrir að nokkurn tíma muni taka að staðfesta, með fullri vissu, auðkenni mannsins og eru aðstandendur meðvitaðir um verklag við þá vinnu.

Að rannsókninni í dag unnu, auk lögreglumanna af Suðurlandi, fulltrúar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, réttarmeinafræðingur og fulltrúar kennslanefndar ríkislögreglustjóra. Eldsupptök eru til rannsóknar og eru ókunn.

Lögreglan á Suðurlandi biður þá sem telja sig hafa orðið vara við eld eða reyk á þessum slóðum í nótt eða framan af degi eða búa yfir upplýsingum sem þeir telja að kunni að skipta máli við rannsóknina að hafa samband í síma 444-2000, á facebook eða með tölvupósti á sudurland@logreglan.is.

Fyrri greinHúsbíll fannst brunninn í Árnessýslu
Næsta grein„Að hafa trú á sjálfum sér er ótrúlega magnað veganesti“