Lenti í Ölfusá á flótta undan lögreglunni

Mikill viðbúnaður var á bökkum Ölfusár við Ölfusárbrú á Selfossi eftir að bíll lenti í ánni á ellefta tímanum í morgun. Sérsveit lögreglu, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi veittu bílnum eftirför í morgun, sem lauk með því að bíllinn fór í ánna.

Ökumanninum var bjargað af þaki bifreiðarinnar en björgunarsveitarmenn úr Björgunarfélagi Árborgar náðu manninum um borð í gúmmíbát. Samkvæmt heimildum sunnlenska.is er hann heill á húfi.

Ölfusárbrú var lokuð til klukkan 11:34 vegna björgunaraðgerðanna.

Eftirför lögreglu hófst í Reykjavík en maðurinn ók út úr borginni og austur fyrir fjall. Lögreglan setti upp vegatálma við Hveragerði sem maðurinn komst framhjá. Einnig reyndi lögreglan að aka utan í bílinn.

Vegatálmi var á Ölfusárbrú og þegar ökumaðurinn kom að brúnni tók hann vinstri beygju út fyrir veg og fór út í ánna austan megin við brúna og flaut síðan undir hana þangað til að bifreiðin stöðvaðist á grynningum.

Aftur var opnað fyrir umferð um Ölfusárbrú kl. 11:34.

Fyrri greinTíu milljón króna greiðsla finnst ekki
Næsta greinGerðu góða ferð til Vestmannaeyja