Lengja þarf afgreiðslutíma heilsugæslustöðvar

Sveitarstjórn Mýrdalshrepps hefur óskað eftir fundi með forsvarsmönnum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands til að fara yfir málefni heilsugæslustöðvarinnar í Vík. Hún er opin virka daga á milli kl. 9 og 12.

„Það var dregið úr opnun stöðvarinnar fyrir tveimur árum vegna niðurskurðar hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Heilsugæslustöðin okkar miðar við þjónustu fyrir fimm hundruð manns sem hér eiga lögheimili, en alls ekki við þá sjö til átta hundruð þúsund ferðamenn sem fara um sveitarfélagið á ári hverju með mislöngum stoppum,“ segir Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri Mýrdalshrepps.

„Hér er gistirými fyrir um 1200 manns og þau eru full að meira eða minna leyti níu mánuði ársins og mikil notkun utan þess tíma, svo sem í febrúar þegar allt hefur hér verið fullt. Þótt við deildum þeim fjölda sem fer hér um jafnt niður á árið þá erum við að tala um að hér séu að jafnaði á þriðja þúsund ferðamanna,“ segir Ásgeir ennfremur.

Hann segir að vissulega sé það miklu stærri hluti hópsins sem fer um héraðið yfir sumarmánuðina. Í febrúar hafi dag eftir dag yfir eittþúsund bílar ekið um Reynisfjall. Þessi gríðarlega umferð um þjóðvegina sem alls ekki eru tilbúnir til að taka á móti þessari umferð hvorki hvað varðar breidd eða vetrarþjónustu þýðir að umferðarslys eru tíð.

„Að sjálfsögðu þýðir þetta mjög aukið álag á okkar heilbrigðisstarfsmenn að sinna slíku,“ bætir Ásgeir við. Hann áréttar að framboð þjónustunnar þurfi að taka mið af þeim fjölda sem heimsækir sveitarfélagið en ekki eingöngu við þá sem eiga þar lögheimili.

Fyrri greinMaðurinn fannst í svefnpoka
Næsta greinEitt landsmet og sex HSK met