Leitað við Ölfusá eftir að bakpoki fannst á bakkanum

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögregla og björgunarsveitir leituðu á og við Ölfusá í kvöld eftir að bakpoki fannst á árbakkanum ofan við Ölfusárbrú.

Vegfarandi fann pokann og skilaði honum inn til lögreglu en pokinn var þá búinn að liggja á árbakkanum í meira en klukkustund. Talsvert af útivistarbúnaði var í bakpokanum en ekkert sem gat gefið til kynna hver eigandinn væri.

Ákveðið var að fá sporhund frá Björgunarsveit Hafnarfjarðar, til að fara um svæðið í kringum bakpokann, auk þess sem straumvatnsbjörgunarflokkur frá björgunarsveitinni Árborg var kallaður út til að skoða svæði neðan við Ölfusárbrú.

Á þessum tímapunkti lágu ekki fyrir upplýsingar um að nokkur hefði fallið í ána heldur var eingöngu um varúðarráðstöfun að ræða.

Leit var síðan hætt á ellefta tímanum í kvöld þegar eigandi bakpokans komst í leitirnar. Þar var um að ræða erlendan ferðamann sem skildi bakpokann eftir við ána áður en hann fékk sér langan göngutúr.

Fyrri greinJafnt í fjörugum leik á Selfossi
Næsta greinSkrifað undir samning um brúarsmíði við Hverfisfljót og Núpsvötn