Leitað að tilnefningum að öflugum konum í atvinnulífinu

Árið 2021 fór FKA Viðurkenningarhátíðin fram á Hringbraut á tímum heimsfaraldurs, hátíðin varð sjónvarpsþáttur sem vakti athygli. Þar fékk Fida Abu Libdeh FKA Hvatningarviðurkenningu 2021, Bryndís Brynjólfsdóttir FKA þakkarviðurkenningu 2021 og María Fjóla Harðardóttir FKA Viðurkenninguna 2021. Með þeim á myndinni eru þær Áslaug Gunnlaugsdóttir fyrrum stjórnarkona FKA, Hulda Ragnheiður Árnadóttir þá formaður FKA, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri FKA. Ljósmynd/Aðsend

FKA Viðurkenningarhátíðin er haldin árlega þar sem konur úr atvinnulífinu eru heiðraðar. FKA kallar nú eftir tilnefningum frá almenningi og atvinnulífinu sem dómnefnd mun meta og á endanum velja konur sem hljóta FKA þakkarviðurkenningu, FKA viðurkenningu og FKA hvatningarviðurkenningu.

Áhersla á sem breiðastan bakgrunn
„Við skipan dómnefndar Viðurkenningarhátíðar FKA er leitast við að einstaklingar hafi sem breiðastan bakgrunn í aldri, reynslu, búsetu og uppruna. Það er í fullu samræmi við stefnu FKA í víðasta skilningi orðsins og eina vitið ef við ætlum að beina kastaranum að ólíkum konum um land allt,“ segir Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri FKA.

Formaður dómnefndar 2022 er Hulda Ragnheiður Árnadóttir forstjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands og fyrrverandi formaður FKA en með henni í dómnefndinni eru Gunnlaugur Bragi Björnsson, samskiptastjóri Viðskiptaráðs, Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá, Jón Þorgrímur Stefánsson, forstjóri NetApp á Íslandi SVP & Global CTO, Tanya Zharov, aðstoðarforstjóri Alvotech, Unnur Elva Arnardóttir, Skeljungi, varaformaður FKA og fulltrúi stjórnar FKA vegna viðurkenningarhátíðarinnar 2022 og Veiga Grétarsdóttir, kayakræðir, fyrirlesari, leiðsögukona og umhverfissinni.

Úrslitin verða kynnt á FKA Viðurkenningarhátíðinni þann 20. janúar 2022 á Grand Hótel Reykjavík. Hægt er að tilnefna á heimasíðu FKA til og með 25. nóvember næstkomandi.

Fyrri grein„Þörf og rými fyrir frjálslynt stjórnmálaafl á svæðinu“
Næsta greinJól í Húsinu á Eyrarbakka