Leitað að manni sem áreitti stúlkubarn

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglan á Suðurlandi óskar eftir að ná tali af manni sem sagður er hafa gefið sig á tal við stúlkubarn á leið suður eftir göngustíg við Fosstún á Selfossi, milli Fosstúns og Þóristúns, til móts við hús númer átta, upp úr kl. 17:00 í gær.

Stúlkan segir manninn hafa gripið í hana og beðið að koma með sér. Hún hafi hins vegar slitið sig frá honum og haldið heimleiðis. Stúlkan er algerlega ómeidd en var nokkuð brugðið.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi segir að stúlkan hafi, í samtali við lögreglu og fulltrúa barnaverndar, gefið greinargóða lýsingu á manninum þar sem fram kom m.a. að hann hafi verið í svörtum buxum og dökkum jakka.

Lögreglunni þykir mikilvægt að upplýsa um málsatvik og óskar því eftir að ná tali af viðkomandi manni og jafnframt að fá upplýsingar frá vegfarendum á þessari leið um manninn eða annað er máli kann að skipta, búi einhver yfir þeim.

Hægt er að ná sambandi við lögregluna á Suðurlandi í síma 444-2000 eða með því að hringja í 112. Jafnframt má senda upplýsingar á netfangið sudurland@logreglan.is.

Fyrri greinJólaljósin kveikt í Árborg
Næsta greinGríðarlegur heiður að fá þetta tækifæri